Úthlutun sæta í almennum kosningum

Hér má nálgast reiknisíðu sem úthlutar sætum í almennum kosningum, t.d. í sveitarstjórnarkosningum.

Úthlutun sæta til framboðslista í hlutfalli við atkvæðatölur kemur víða við sögu. Hérlendis þekkjum við viðfangsefnið þegar kosið er til Alþingis og sveitarstjórna en líka við kosningar í stjórnir sumra félaga eða annarra kosninga þar, t.d. á hluthafafundum. Flóknast er viðfangsefnið við úthlutun þingsæta. Þar kemur slík grunnúthlutun við sögu með tvennum hætti. Annars vegar þegar kjördæmissætum er úthlutað en hins vegar þegar jöfnunarsætum er skipt á milli þingflokka.

Af mýgrúti þekktra úthlutunarreglna er sú sem kennd er við d‘Hondt (en í Bandarríkjunum við Jefferson, þriðja forseta sambandsríkisins) einna algengust og hefur verið ráðandi hérlendis frá upphafi hlutfallskosninga fyrir rúmri öld. Aðferðin er nú lögð til grundvallar úthlutunar sæta bæði til Alþingis og til sveitarstjórna svo og í hlutafélagalögum.

Regla d‘Hondts, eins og aðrar svokallaðar deilireglur, er þannig útfærð að deilt er í atkvæðatölu hvers lista með runu deilitalna. Deildunum sem þannig fást er skipað í stærðarröð og er sætum úthlutað til hæstu deildanna, jafnmörgum og sætum sem úthluta skal. Í reglu d‘Hondts eru deilitölurnar einfaldlega runa heiltalnanna 1, 2, 3 o.s.frv.

UthlutunMedDhondt  (Excel skjal)